Hoppa yfir valmynd
8. júní 2024

Opið hús á Bessastöðum

Bessastaðir - myndMynd: Forseti.is

Forsetasetrið að Bessastöðum verður opið almenningi laugardaginn 8. júní í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldis á Íslandi. Forsetahjón taka á móti gestum og býðst fólki að skoða staðinn milli klukkan 13:00 og 17:00.

Þetta verður í síðasta sinn sem Bessastaðir eru opnir almenningi í tíð fráfarandi forseta. Síðan hann tók við embætti 2016 hefur opið hús á Bessastöðum orðið að reglulegum viðburði, tvisvar til þrisvar á ári, í því skyni að gefa almenningi öllum kost á að kynnast þjóðhöfðingjasetrinu.

Bessastaðir eiga sér merka sögu. Auk Bessastaðastofu, sem byggð var á 18. öld, munu gestir geta skoðað móttökusal og bókhlöðu forsetasetursins sem eru síðari tíma viðbyggingar. Í húsinu má meðal annars sjá úrval myndlistar eftir íslenska listamenn og sýnishorn gjafa sem borist hafa forsetum lýðveldisins. Þá verða til sýnis dæmi um mannvistarleifar sem fundist hafa við fornleifarannsóknir og veita innsýn í búsetu á Bessastöðum allt frá landnámstíð. Að þessu sinni verður Bessastaðakirkja lokuð vegna framkvæmda og fornleifauppgraftar. Lokað verður ofan í fornleifakjallarann.

Fyrsti forsetabíllinn, Packard bifreið Sveins Björnssonar, mun standa í hlaði en bifreiðin er árgerð 1942. Starfsmenn embættis forseta og aðstoðarmenn veita upplýsingar um staðinn og verða gestum til aðstoðar. Þá mun kór Vídalínskirkju syngja nokkur lög á hlaði um það leyti sem húsið verður opnað kl. 13:00.

Einnig á vef embættisins forseti.is

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum